Meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins jákvæður gagnvart ferðamönnum.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru áfram almennt jákvæðir gagnvart ferðamönnum samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem gerð var fyrir Höfuðborgarstofu  í sumar. Ánægjan er þó minni en árin á undan en ferðamenn voru 88% fleiri á landinu  fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tíma árið 2015, samkvæmt gögnum frá Ferðamálastofu.  Langflestir eru stoltir af því að búa í borg sem tekur vel á móti ferðamönnum og meirihluti telur íbúa gestrisna gagnvart ferðamönnum.  Ferðamenn fá líka góða einkunn en langflestir segja lítið ónæði af þeim og telja þá vinsamlega í samskiptum sínum við heimamenn. Flestir eru á því að aukinn fjöldi ferðamanna hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu

Maskína framkvæmdi könnunina fyrir Höfuðborgarstofu og fór hún fram 12. apríl til 9. júní 2017. Könnunin var lögð fyrir íbúa í öllum póstnúmerum  á höfuðborgarsvæðinu, alls svöruðu 1.860 manns og er þetta þriðja sinn sem slík könnun er gerð.

Könnunin leiðir í ljós að níu af hverjum tíu íbúum á höfuðborgarsvæðinu eru ýmist í meðallagi, frekar eða mjög jákvæðir gagnvart ferðamönnum. Um níu prósent íbúa segjast fremur eða mjög neikvæð gagnvart þeim. Þetta er örlítil breyting frá síðasta ári þegar sömu hlutföll voru 95% og rúmlega sex prósent sögðust frekar og mjögneikvæð gagnvart ferðamönnum.

Sjö af hverjum tíu íbúum telja fjölda ferðamanna hæfilegan í sínu hverfi á sumrin á móti tæplega 57% íbúa í miðborginni. Sex af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins telja  að á sumrin sé fjöldi ferðamanna í miðborginni of mikill.

Yfir vetrarmánuðina telja um 70% íbúa á höfuðborgarsvæðinu ferðamenn í sínu hverfi vera hæfilegan en hlutfallið er 64% hjá íbúum miðborgarinnar. Sex af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins telja fjölda ferðamanna í miðborginni hæfilegan á veturna og hlutfallið er svipað hjá íbúum miðborgarinnar.

Íbúar miðborgarinnar eru jákvæðari gagnvart ferðaþjónustunni en íbúar höfuðborgarsvæðisins í heild en í miðborginni segja 63% að almennt vegi jákvæðar hliðar ferðaþjónustu þyngra en neikvæðar á móti helmingi aðspurðra á höfuðborgarsvæðinu í heild.

Fréttatilkynning frá Reykjavíkurborg.

 

Átta af hverjum tíu segja að aukinn fjöldi ferðamanna hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu og fleirum finnst lífsgæðin í sínu nærumhverfi hafa batnað en versnað með auknum fjölda ferðamanna eða 20% á móti 10%. Í miðborginni eru íbúar afdráttarlausari og segir um þriðjungur þeirra að lífsgæði sín hafi batnað og fjórðungur að þau hafi versnað.

 

Næstum allir íbúar á höfuðborgarsvæðinu segja ferðamenn vera í meðallagi, frekar eða mjög vinsamlega eða um 98% og aðeins fleiri íbúar í miðborginni telur þá mjög vinsamlega borið saman við íbúa á svæðinu í heild eða tæplega þriðjungur á móti 25% .

94% telja að íbúar á höfuðborgarsvæðinu séu í meðallagi, fremur eða mjög gestrisnir gagnvart erlendum ferðamönnum. Sama hlutfall telur að framboð á veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist með auknum fjölda ferðamanna sem er aðeins meira en á síðasta ári. Þá telja tæplega níu af hverjum tíu að framboð á kaffihúsum hafi aukist með fjölguninni.

 

Níu af hverjum tíu íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur sjaldan eða aldrei orðið fyrir ónæði frá ferðamönnum við heimili sitt og 65% íbúa í miðborginni.

Fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntir því að einstaklingar geti leigt út eigið húsnæði í gegnum Airbnb í allt að 90 daga á ári en þeir sem eru á móti því eða um helmingur á móti 28%.

Íbúar miðborgarinnar eru hins vegar áhugasamari um að leigja út heimili sín en þar hefur fimmtungur fremur eða mjög mikinn áhuga á því en 60% hafa fremur eða mjög lítinn áhuga á því.

 

Þá verða þrír af hverjum fjórum íbúum borgarinnar fremur eða mjög lítið varir við rekstur heimagistingar í nágrenni við sig. 13% verða hins vegar fremur mikið eða mjög mikið vör við slíkan rekstur. Allt önnur staða er í miðborginni þar sem helmingur verður fremur eða mjög mikið var við rekstur heimagistingar. Þriðjungur verður hins vegar fremur lítið eða mjög lítið var við hann.