Fatlað fólk sameinast í Brussel til þess að krefjast réttinda til sjálfstæðs lífs

Frá 24. til 28. september 2017 sameinaðist í Brussel fjöldi fatlaðra einstaklinga og stuðningsmenn þeirra víðsvegar að úr Evrópu til þess að vekja athygli á réttindum fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Viðburðurinn var haldinn á vegum Evrópusamtaka um Sjálfstætt líf (ENIL) og kallast ENIL 2017 Freedom Drive.

Viðburðurinn Freedom Drive er haldinn á tveggja ára fresti. Þar gefst þátttakendum m.a. tækifæri til að hitta fulltrúa Evrópuþingsins og vekja athyli á mannréttindum auk þess að deila reynslu og hugmyndum með öðrum mannréttindafrumkvöðlum og aktívistum frá ólíkum hornum Evrópu.

NPA miðstöðin sendi fulltrúa sína á Freedom Drive til að styðja við baráttu fatlaðs fólks í Evrópu og deila reynslu fatlaðs fólks á Íslandi með þátttakendum. Að mati miðstöðvarinnar er mikilvægt að taka þátt í þessari baráttu en eins og kunnugt er hefur rétturinn til sjálfstæðs lífs ekki enn verið lögfestur á Íslandi.

NPA miðstöðin hvetur þingheim til að lögfesta NPA eins fljótt og kostur er eftir kosningar. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð með vísan til 19. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRFF). Eingöngu er tæpt ár þangað til nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um SSRFF framkvæmir sína fyrstu úttekt á stöðu innleiðingarinnar á Íslandi og því er brýnt að stjórnvöld klári lögfestingu NPA án tafar.

Freedom Drive náði hámarki miðvikudaginn 27. september þegar þátttakendur gengu um miðborg Brussel, frá Evrópuþinginu til Framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins, til að senda ráðamönnum og stefnumótendum í málaflokknum skýr skilaboð um mikilvægi jafnra mannréttinda, jafnra tækifæra, borgaralegra réttinda og sjálfstæðs lífs fyrir fatlað fólk í Evrópu.

Freedom Drive kröfugangan er leið fyrir fatlað fólk til þess að gera sig sýnilegt fyrir ákvörðunarvaldhöfum í Evrópu og tryggir að okkar réttindi og okkar málefni séu tekin alvarlega.

– Zara Todd, nýr formaður ENIL

Um gervalla Evrópu er fötluðu fólki enn mismunað, þrátt fyrir að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið við lýði í yfir 10 ár. Hér á Íslandi var samningurinn loks fullgiltur á síðasta ári en valfrjáls bókun við hann, sem kveður m.a. á um miðlægt eftirlit með framkvæmd og innleiðingu samningsins af hálfu sjálfstæðrar nefndar og málskotsréttar, hefur enn ekki verið fullgild. Þá hefur, líkt og áður segir, rétturinn til sjálfstæðs lífs enn ekki verið lögfestur og á Íslandi býr fjöldi fatlaðs fólks við mismunun er varðar sjálfsögð borgaraleg réttindi og nýtur ekki sömu tækifæra til jafns við aðra til þátttöku í samfélaginu.

Í kjölfar kröfugöngunnar var síðan haldin ráðstefna sem bar yfirskriftina „Sjálfstætt líf: Rödd fyrir alla!
(e. Independent Living: A Voice for All!)
“. Evrópuráðherra atvinnu- og félagsmála, Marianne Thyssen opnaði ráðstefnuna.

Fréttatilkynning frá NPA miðstöðinni.