Friðarskipið, eftirlifendur og fulltrúar ICAN Friðarverðlaunahafa Nóbels 2017 í Ráðhúsi

Friðarskipið eða Peace Boat er nú í Reykjavík og af því tilefni verður skipulögð sérstök dagskrá sem hefst í Tjarnarsal Ráðhúss kl. 11.00, laugardaginn 7. október 2017. Meðal farþega skipsins er Tokuko Kimura sem lifði af kjarnorkuárásina á Nagasaki og mun hún segja gestum ráðhúss sögu sína.

Koma skipsins að þessu sinni er sérstaklega ánægjuleg og mikilvæg, í ljósi þess að norska Nóbelsnefndin tilkynnti í morgun að samtökin ICAN – International Campaign to Abolish Nuclear Weapons, hefðu hlotið Friðarverðlaun Nóbels 2017. Samtökin hljóta verðlaunin fyrir brautryðjendastarf í baráttunni gegn kjarnorkuvopnum og því að fá ríki heims til að undirrita sáttmála um eyðingu þeirra, en 122 ríki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna undirrituðu í júlí sáttmála sem miðar að eyðingu allra kjarnorkuvopna.

„Ákvörðun Nóbelsnefndarinnar um að veita ICAN verðlaunin er viðurkenning á því mikilvæga hlutverki sem eftirlifendur (Hibakusha) kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki, sem og frjáls félagasamtök, hafa gegnt við það að vekja athygli á hinum hrikalega mannlega harmleik sem leiðir af notkun kjarnavopna. Eins er ákvörðunin viðurkenning á því starfi sem hefur leitt til þáttaskila í baráttunni gegn kjarnavopnum – nefnilega samningsbundnu banni við slíkum vopnum. Verðlaunin eru virðingarvottur við allar manneskjur og félagasamtök, einnig eftirlifendur kjarnorkuárásanna, fyrir hugrekki þeirra og baráttu fyrir heimi án kjarnavopna,“ segir Akira Kawasaki fulltrúi í framkvæmdastjórn Friðarskipsins af þessu tilefni en hann er einnig fulltrúi í alþjóðlegum stýrihópi ICAN samtakanna.

Akira Kawasaki tekur þátt í dagskránni í Ráðhúsinu og munu þau Tokuko Kimura gefa kost á viðtölum fyrir og eftir hana. 

Yfirlýsing Peace Boat föstudaginn 6.10.2017

 

 Ítarefni:

 Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur

laugardaginn 7. október 2017, hefst kl. 11:00 og lýkur kl. 12.30

11.00     Forseti borgarstjórnar Líf Magneudóttir býður gesti velkomna
11.05     Ávarp Hr. Yasuhiko Kitagawa, sendiherra Japans á Íslandi
11.10     Kynning á Friðarfleyinu og verkefni eftirlifenda (Hibakusha)

Í samhengi alþjóðastjórnmála, banni við kjarnavopnum, N-Kóreu deilunnar o.fl. Akira KAWASAKI, verkefnastjóri Hibakusha verkefnis Friðarskipsins

11.20     Tokuko KIMURA flytur vitnisburð eftirlifanda (hibakusha)
11.55     Ávarp ungliða, Shion URATA
12.05     Spurningar og svör

Undirskriftarlistar eftirlifenda – kallað eftir friði og kjarnorkulausum heimi
12.30     Lokaorð og kveðja

Um Friðarskipið

Alþjóðlegu félagasamtökin „Peace Boat“ eða „Friðarskipið“ hafa aðsetur í Japan og hófu hnattreisur sínar fyrir heimi án kjarnavopna, og til að segja sögur eftirlifenda kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki, árið 2008. Fram til þessa hafa yfir 170 eftirlifendur árásanna tekið þátt í verkefninu og ferðast um heiminn til að segja sögu sína og tala fyrir heimi án kjarnorkuvopna.

Í 95. ferðinni, frá 13. ágúst til 24. nóvember 2017, mun einn eftirlifandi árásarinnar á Nagasaki heimsækja fjölda landa í Evróu og Ameríkum og tala fyrir afnámi kjarnavopna. Frásögnin er studd erindi ungrar baráttumanneskju og mun þessi þriðju kynslóðar eftirlifandi leggja áherslu á það við áheyrendur um heim allan að umsvifalaust verði hafist handa við afnám kjarnorkuvopna.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum var samþykktur í júlí í ár vegna alþjóðlegs þrýstings sem sprettur af meðvitund um það hversu mikil áhrif kjarnavopn hafa á mannkyn allt. Ákall eftirlifenda kjarnorkkuárásanna vó þungt í því samhengi. Með þessu verkefni vill Friðarfleyið skora á öll ríki sem heimsótt verða til að undirrita og fullgilda samninginn. Þá verður undirskriftum við ákall eftirlifendanna safnað í hverri viðkomuhöfn.

Meðalaldur eftirlifenda kjarnorkuárásanna er nú yfir 81 ár sem þýðir að farið er að fenna yfir minningarnar um stríðið og kjarnorkusprengingarnar. Á sama tíma og við missum þau sem upplifðu beint þjáningar heimsstyrjaldarinnar síðari hefur hættulegum hugmyndum um stríð og hernaðarhyggju aftur vaxið ásmegin. Fjöldi fólks frá Japan og öðrum löndum í Austur Asíu ferðast saman með skipinu og fara vitnisburðir og umræður einnig fram um borð – með það að markmiði að skapa sameiginlegan skilning og samhæfa aðgerðir gegn sríðsrekstri og fyrir friði.

facebookviðburðinn: https://www.facebook.com/events/1220771758068703/?ref=br_rs

Fréttatilkynning frá Reykjavíkurborg.