Bleika slaufan uppseld hjá Krabbameinsfélaginu – enn til á nokkrum sölustöðum

Silfurslaufan uppseld

Landsmenn hafa tekið átaki Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufunni, opnum örmum því birgðir af slaufunni hjá Krabbameinsfélaginu eru uppurnar. Enn eru þó til slaufur hjá einhverjum sölustaða um land allt. Silfurslaufan sem framleidd var í takmörkuðu upplagi og einungis seld hjá gullsmiðum og Krabbameinsfélaginu er nú uppseld.

Bleiki dagurinn er á morgun

Bleiki dagurinn verður haldinn á morgun, föstudaginn 13. október 2017. Þennan dag hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn til að sýna samstöðu með þeim konum sem greinst hafa með krabbamein, klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi. Stuðningur okkar allra skiptir máli.

Vinnustaðir

Við hvetjum fyrirtæki til að taka þátt í Bleika deginum og kynna sér nýtt fræðsluefni um krabbamein á vinnustöðum. Þar er að finna haldgóðar og aðgengilegar upplýsingar um hvernig hægt er að styðja vinnufélaga sem greinst hefur með krabbamein. Með því að hafa samband við krabbameinsfélagið á krabb@krabb.is er hægt að fá sent veggspjald sem tilvalið er að hafa uppi til dæmis á kaffistofu vinnustaðarins.

Krabbameinsfélagið þakkar öllum sem stutt hafa starf félagsins með kaupum á Bleiku slaufunni og hvetur þá sem vilja tryggja sér slaufu að festa kaup á henni þar sem hún fæst. Sölustaði um allt land má finna á Bleikaslaufan.is en þeir eru meðal annars apótek, matvöruverslanir, bensínstöðvar, byggingavöruverslanir, Pósturinn, kaffihús og ritfangaverslanir.

Fréttatilkynning frá Krabbameinsfélaginu.