Bréfið góða

Það var um árið þegar tölvupóstar og farsímar voru ekki til að ungur maður fór til náms í Kaupmannahöfn. Hann lifði hátt og peningarnir sem áttu að duga til vors voru fljótt uppurnir. Hann tók því það til bragðs að skrifa svohljóðandi bréf til foreldra sinna, sem höfðu reyndar heyrt af líferni hans:

„Elsku mamma og pabbi.

Það tekur mig sárt að þurfa að skrifa ykkur bréf til að biðja ykkur um peninga. Mér líður illa yfir þessu og skammast mín innilega en verð að biðja ykkur um að styrkja mig með eins og 10 þúsund krónum. Ég bið ykkur frá innstu hjartarótum að fyrirgefa mér þetta betl.

Ykkar einlægur sonur,
Nonni

Ps. Mér leið svo illa vegna þessa bréfs að ég hljóp á eftir starfsmanninum sem tæmir póstkassana og bað til Guðs um að ná honum, því mig langaði helst til að taka bréfið til baka, en var of seinn og hann komst inn í bílinn og keyrði burt.“

Tveimur vikum síðar fékk hann svohljóðandi bréf frá pabba sínum:

„Kæri sonur!

Þú hefur verið bænheyrður. Bréfið barst aldrei.

Bestu kveðjur, pabbi.“

Sjá nánar á brandarar.wordpress.com