Norræna velferð til framtíðar

Norðurlönd í fókus boðar til opins fundar í Norræna húsinu, 5. desember kl. 12-13:15 til að ræða norræna velferð til framtíðar.

Í sumar tilkynnti Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, að hann hefði fengið Árna Pál Árnason, fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra Íslands, til að vinna stefnumótandi úttekt á samstarfi Norðurlandanna á sviði félagsmála.

Úttektinni er ætlað að greina þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir á sviði velferðarmála og hvernig hægt sé að nýta norrænt samstarf til að mæta þeim.

Að loknu erindi Árna Páls taka við pallborðsumræður um úttektina og málaflokkinn. Þátttakendur í pallborðsumræðum verða, auk Árna Páls: Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við HÍ, og Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Fundarstjóri er Bogi Ágústsson fréttamaður. Fundurinn er öllum opinn.

Fréttatilkynning frá Norræna húsinu.