Norðurljósahlaup WOW í kvöld

Í kvöld fer Norðurljósahlaup WOW fram í annað sinn í miðbæ Reykjavíkur. Hlaupið er hluti af WOW Reykjavik International Games og Vetrarhátíð í Reykjavík. Truflanir verða á umferð í miðbænum frá klukkan 18:40-20:00 vegna hlaupsins. Ingólfsstræti, Njarðargata og Skólavörðustígur verða lokuð frá klukkan 19:00 – 19:30. Töluverð truflun verður einnig á umferð við Hafnarhúsið í Tryggvagötu á meðan á hlaupinu stendur eða frá 19:20 – 20:30.

Norðurljósahlaupið er tæplega 5 km skemmtiskokk sem er hluti af Vetrarhátíð. Þátttakendur hlaupa með upplýstan varning um miðbæ Reykjavíkur og eru hluti af glæsilegri ljósasýningu. Hlaupið hefst við Hörpu, fer hjá Hallgrímskirkju, í gegnum Ráðhús Reykjavíkur, og endar svo í Listasafni Reykjavíkur. Engin tímataka er í hlaupinu því það er ekki „keppni“ sem slík heldur upplifun. Þátttakendur eru hvattir til að flýta sér hægt og njóta ljósasýningarinnar á leiðinni.

Skráning og afhending gagna fyrir Norðurljósahlaupið fer fram í verslun Cintamani í Bankastræti klukkan 9:00-18:00 í dag. Fjöldi þátttakenda í hlaupið er takmarkaður við 1100 manns og fólk því hvatt til að mæta tímanlega til að tryggja sér þátttöku. Innifalið í þátttökugjaldinu er meðal annars armband, fingraljós og gleraugu sem lýsa í myrkri ásamt glaðningi frá Cintamani.

Dagskrá hlaupsins

Kl. 18:00

Upphitun hefst við Hörpu, DJ Dora Julia sér um taktinn

Kl. 19:00

Ræsing við Hörpu

Endamark:

Listasafn Reykjavíkur við Tryggvagötu

Hlaupinu lýkur með ljósapartýi og lifandi tónlist Frikka Dórs. Einn heppinn hlaupari vinnur flug með WOW air í hlaupinu.

Allar nánari upplýsingar má finna á nordurljosahlaup.is

Fréttatilkynning frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.