Þétt dagskrá í dag – WOW Reykjavik International Games

Dagskráin á íþróttaleikunum WOW Reykjavik International Games verður þétt í dag. Keppt verður í níu íþróttagreinum yfir daginn og svo er Norðurljósahlaup WOW á dagskránni í kvöld.

Badminton

Þessa helgina verður keppt í badminton unglinga á Reykjavíkurleikunum í TBR húsinu en um síðustu helgi var alþjóðlegt fullorðinsmót á dagskránni. Um 150 leikmenn taka þátt í mótinu frá Íslandi, Færeyjum og Svíþjóð. Erlendu keppendurnir eru 62 talsins en þeim fylgir annar eins fjöldi af þjálfurum, fararstjórum og áhorfendum. Hér er hægt að sjá leikjaröð dagsins í badminton: Sjá nánar á tournamentsoftware.com

Bogfimi

Keppni í Bogfimi fer fram í Bogfimisetrinu við Dugguvog. Þátttakendur í mótinu eru auk Íslendinga frá Færeyjum, Póllandi, Írlandi, Svíþjóð og Ástralíu. Keppt er með bæði sveigboga og trissuboga. Keppni hefst klukkan 9:30 í dag og stendur til 18. Úrslitaeinvígi mótsins verða háð á morgun sunnudag. Sjá nánari dagskrá hér: Sjá nánar á ianseo.net

Fimleikar

Keppt verður í fimleikum í Ármannsheimilinu alla helgina. Í dag fer alþjóðlegi hluti fimleikakeppninnar fram en yngri hópurinn hefur keppni klukkan 11:40 og þau eldri klukkan 15:00. Flest af besta fimleikafólki landsins tekur þátt ásamt mjög góðu fimleikafólki frá Svíþjóð, Bandaríkjunum, Rússlandi og Wales. Einnig er þrepamót á dagskránni bæði laugardag og sunnudag. Sjá nánari dagskrá og lista yfir keppendur hér: Sjá nánar á fimleikasamband.is

Frjálsíþróttir

Keppni í frjálsíþróttum fer fram í Laugardalshöll klukkan 13:00-15:00. Feikna sterkir erlendir keppendur mæta til keppni ásamt flestu af besta frjálsíþróttafólki landsins. Tímaseðil keppninnar má finna hér: Sjá nánar á 82.221.94.225

Keila

Undankeppni í keilu hófst á fimmtudag og lýkur í dag. Keppni hefst klukkan 9:00 í Keiluhöllinni í Egilshöll og lýkur um klukkan 12. Á sunnudaginn verður útsláttarkeppni. Bæði heims og Evrópumeistarar eru á meðal keppenda í mótinu. Sjá nánari upplýsingar hér: Sjá nánar á ir.is

Skotfimi

Skotfimimótið er það fjölmennasta sem haldið hefur verið hérlendis. Keppni fer fram í Egilshöllinni í Grafarvogi  og hefst klukkan 8:00. Skráningar eru 62 talsins í báðar keppnisgreinarnar, loftskammbyssu og loftriffil. Sjá nánari dagskrá og lista yfir keppendur hér: Sjá nánar á sr.is

Skvass

Leikið verður til úrslita í skvassi í dag. Keppni hefst klukkan 11 og stendur yfir til 14:30. Niðurröðun, tímasetningar einstakra leikja og úrslit má finna hér: Sjá nánar á docs.google.com

Skylmingar

Keppt verður í barna og unglingaflokkum í skylmingum í dag frá klukkan 10-16:30. Á morgun sunnudag verður keppt í eldri flokkum unglinga og fullorðinsflokkum. Erlendir keppendur koma frá Svíþjóð, Litháen, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Búlgaríu. Dagskrá mótsins má finna hér: Sjá nánar á docs.wixstatic.com

Fréttatilkynning frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.