Hátíðinni lýkur í dag – WOW Reykjavik International Games

Íþróttaleikunum WOW Reykjavik International Games lýkur í dag en þessi mikla íþróttahátíð hefur staðið yfir síðan 25.janúar. Keppt verður í fjórum íþróttagreinum í dag en í kvöld verður hátíðardagskrá í Laugardalshöll þar sem veitt verða verðlaun og ýmis skemmtiatriði eru á dagskránni.

Badminton

Undanúrslit í badminton unglinga hófust í TBR húsinu klukkan 9 í morgun en úrslitaleikir hefjast um klukkan 12:30. Um 150 leikmenn taka þátt í mótinu frá Íslandi, Færeyjum og Svíþjóð. Erlendu keppendurnir eru 62 talsins en þeim fylgir annar eins fjöldi af þjálfurum, fararstjórum og áhorfendum. Hér er hægt að sjá leikjaröð dagsins í badminton: Sjá nánar á tournamentsoftware.com

Bogfimi

Keppni í Bogfimi fer fram í Bogfimisetrinu við Dugguvog. Í undankeppninni í gær sló Sigurjón Atli Sigurðsson Íslandsmet í sveigboga með 579 stigum en fyrra metið var 577 stig. Í dag verður keppt til úrslita, áttaliðaúrslit hófust klukkan 9:30 en úrslitaviðureignirnar hefjast klukkan 16:00. Hér er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu: Sjá nánar á youtube.com  Sjá nánari dagskrá hér: Sjá nánar á ianseo.net

Keila

Útsláttarkeppni í keilu hófst klukkan 10:00 í morgun. Leikið er maður á mann, sigra þarf tvær viðureignir til að komast áfram. Undanúrslit og úrslit verða í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 15:30. Bæði heims og Evrópumeistarar eru á meðal keppenda í mótinu. Sjá nánari upplýsingar hér: Sjá nánar á ir.is

Skylmingar

Keppni í fullorðinsflokkum í skylmingum hefst klukkan 13:00 í dag, í gær og í morgun var keppt í unglingaflokkum. Undanúrslit hefjast klukkan 14:40 og úrslit klukkan 15:20. Erlendir keppendur koma frá Svíþjóð, Litháen, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Búlgaríu. Dagskrá mótsins má finna hér: Sjá nánar á docs.wixstatic.com

Fréttatilkynning frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.